Nokkrir af vinsælustu spjallþáttunum í Bandaríkjunum munu á næstunni ekki vera með neina áhorfendur í sal. Er það gert vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Á meðal þeirra þátta sem verða ekki með áhorfendur í sal á næstunni eru þættir Stephen Colbert, John Oliver, Jimmy Fallon, Seth Meyers, Trevor Noah og Samanta Bee, að því er fram kemur í frétt CNN.
Í frétttinni segir að spjallþættirnir verði teknir upp fyrir tómum sölum frá og með mánudeginum næsta.
Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft gríðarleg áhrif á heimsbyggðina að undanförnu.
Þannig kynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti í nótt ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna í þrjátíu daga frá og með miðnætti á föstudag. Nær bannið til allra erlendra ríkisborgara sem hafa verið á Schengen-svæðinu, Íslandi þar með töldu, síðustu fjórtán daga.