Innlent

Enn einu sinni undir áhrifum við akstur en nú á vespu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan hefur meðal annars verið tekin án ökuréttinda í Reykjanesbæ.
Konan hefur meðal annars verið tekin án ökuréttinda í Reykjanesbæ. Vísir/Villhelm
Kona á fertugsaldri hefur verið dæmd í þrjátíu daga fangelsi og svipt ökuréttindum ævilangt eftir að hafa verið stöðvuð endurtekið án réttinda eða undir áhrifum við akstur.

Konan var stöðvuð í apríl í fyrra í Reykjanesbæ þar sem hún ók bíl svipt ökuréttindum. Það var svo í júní síðastliðnum sem hún var stöðvuð við akstur vespu í Sandgerði en í ljós kom að hún var undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði.

Konan mætti ekki við þingfestingu málsins við Héraðsdóm Reykjaness og boðaði ekki forföll. Hún hefur áður gerst brotleg við umferðarlög. Árið 2016 fékk hún 300 þúsund króna sekt þegar hún var tekin við of hraðan akstur, undir áhrifum og að spjalla í símann.

Hún var tekin árið 2017 fyrir að aka svipt ökuréttindum og sektuð um 60 þúsund krónur. Aftur í febrúar 2018 fyrir að aka undir áhrifum og var sektuð um 200 þúsund krónur. Í þeim dómi var hún jafnframt svipt ökuréttinum til tveggja ára, eða til vorsins 2020.

Þar sem þetta var í þriðja skiptið sem konan var tekin við akstur undir áhrifum var refsingin ákveðin þrjátíu daga fangelsi auk sviptingar ökuréttar ævilangt. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×