Innlent

Fólk hvatt til að fara að öllu með gát og huga að hlutum sem geta fokið

Eiður Þór Árnason skrifar
Varað er við stormi og mikilli vætu víða á landinu.
Varað er við stormi og mikilli vætu víða á landinu. Skjáskot
Í dag gengur í hraustlegan suðaustan storm, fyrst á suðvesturhorni landsins upp úr hádegi. Með vindinum fylgir talsverð rigning á suðaustanverðuverðu landinu. Gular viðvaranir eru í gildi um allt land, nema á Vestfjörðum, og er fólk hvatt til að fara að öllu með gát ef ferðast er á milli landshluta og sömuleiðis huga að hlutum sem geta fokið í nærumhverfi sínu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vef Veðurstofunnar.

Spáð er vaxandi suðaustanátt, 18 til 25 metrum á sekúndu upp úr hádegi með rigningu og talsverðri úrkomu þegar líður á daginn. Heldur hægari vindur á Norður- og Austurlandi fram á kvöld og úrkomulítið á þeim slóðum.



Lægir um landið suðvestanvert í kvöld. Suðaustan 5 til 13 metrar á sekúndu á morgun, en 13 til 18 norðaustan og austan til. Rigning eða slydda á Suðausturlandi, en stöku skúrir eða slydduél í öðrum landshlutum. Hiti 1 til 6 stig.

Í kvöld lægir síðan á Suðvesturlandi, en áfram verður hvasst norðaustantil fram eftir nóttu. Á morgun er útlit fyrir mun hægari vind, en þó mun allhvass vindur blása um austanvert landið með talsverðri úrkomu á suðausturlandi. Á þriðjudag lægir almennilega í öllum landshlutum og dregur einnig úr úrkomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×