Háttsettur embættismaður í kínversku ríkisstjórninni segir að þar á bæ styðji menn við harðari aðgerðir til að kveða niður mótmælaölduna í Hong Kong sem staðið hefur mánuðum saman.
Junius Ho, þingmaður á þingi Hong Kong, sem hallur er undir yfirvöld í Kína, var stunginn á götu úti í nótt.
Aðstoðarforsætisráðherra Kína, Han Zheng, sagði á fundi með Carrie Lam, æðsta embættismanni Hong Kong, að staðan í Hong Kong, sem er sjálfstjórnarsvæði í Kína, væri að eyðileggja formúluna sem Kína hafi lengi notast við og kölluð er eitt ríki, tvö kerfi.
Zheng bætti því við að kínversk yfirvöld styðji heilshugar við harðari aðgerðir, enda hafi mótmælendur í Hong Kong farið yfir strikið í mótmælum sínum síðustu daga.
