Skoðun

Flug á Íslandi í 100 ár

Jón Gunnar Jónsson skrifar
Þann 3. september 1919 hóf sig til flugs úr Vatnsmýrinni í Reykjavík AVRO 504K, tvíþekja í eigu hins fyrsta Flugfélags Íslands. Má segja að þá, tæpum 16 árum eftir fyrsta flug Wright-bræðra, hafi flugsaga Íslendinga hafist. Framfarir hafa æ síðan einkennt flugsöguna í samgöngum á heimsvísu, drifnar áfram af hugsjón og nýsköpun.

Lög um loftferðir voru fyrst sett árið 1929 og byggja kröfur og reglugerðir í flugi á þeim. Þegar dró að lokum seinni heimsstyrjaldarinnar þótti nauðsynlegt að koma á samkomulagi um flugstarfsemi í alþjóðaflugi og var Ísland eitt 54 stofnríkja að Alþjóðaflugmála­stofnuninni árið 1944. Aðildarríki eru nú 193 talsins. Flugmálastjórn Íslands starfaði á árunum 1945-2013 og sinnti bæði framkvæmd og stjórnsýslu allt til ársins 2007 þegar skilið var á milli þeirra verkefna.

Á alþjóðavísu hefur verið unnið markvisst að öryggi í flugi, m.a. með innleiðingu krafna og tilmæla Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Íslenska flugmálastjórnin varð aðili að Flugöryggisstofnun Evrópu árið 2005 eftir þátttöku í starfi forvera þeirrar stofnunar. Kjarninn í starfi flugmálayfirvalda er að vinna að sífellt öruggari flugrekstri í sinni víðustu mynd. Jafnframt er mikilvægt að tryggja trúverðugleika íslenskra aðila sem starfa í greininni, með gagnkvæmum viðurkenningum á réttindum samkvæmt alþjóðlegum kröfum. Miklir hagsmunir felast í góðu samstarfi við fluggeirann og fagmennsku á öllum stigum.

Samgöngustofa var stofnuð 2013 með sameiningu nokkurra stofnana í samgöngumálum, m.a. Flugmálastjórnar Íslands. Með því færðust þangað verkefni flugmálayfirvalda er varða stjórnsýslu- og eftirlitsskyldu og sameinuðust þar að hluta málaflokkum annarra samgöngumáta. Samgöngustofa heldur áfram því verki sem Flugmálastjórn sinnti áður, setur markið hátt og slær hvergi af í stefnu sinni og starfi er varðar öryggi og hagkvæmni. Hundrað ár eru ekki langur tími þegar horft er til þess hversu mikil framþróun hefur orðið frá fyrsta flugtakinu í Vatnsmýrinni. Helsta hlutverk Samgöngustofu er að tryggja áfram flugöryggi á Íslandi og trúverðugleika landsins í alþjóðlegu flugumhverfi.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×