Olga Katrín hleypur fyrir litlu systur sína, Ólavíu, sem er fimm ára gömul og rennur söfnunarféð til styrktarfélagsins Vinir Ólavíu. Þann 3. júní síðastliðinn greindist Ólavía með illkynja heilaæxli á fjórða stigi og er í miðri geislameðferð sem stendur.

Eftir geislameðferð mun Ólavía fara í árlanga lyfjameðferð og því ljóst að vegurinn framundan er langur. Olga Katrín er þó þakklát að brugðist hafi verið hratt við enda mikil þörf á því að grípa í taumana þegar æxlið var komið á þennan stað.
Hlaupið hefur hjálpað í ferlinu

„Það er mjög mikil hvatning, við erum líka svo samheldinn hópur sem erum að hlaupa,“ segir Olga Katrín en hún þorir ekki að fullyrða hve margir hlaupa fyrir Vini Ólavíu. Hún telur að það geti verið allt að fimmtíu manns sem ætli að reima á sig hlaupaskóna í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst fyrir Ólavíu.
Hugmyndin um að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu kom upphaflega frá móðursystrum hennar og fjölskyldu og segir hún hlaupin tvímælalaust hafa hjálpað henni að takast á við veikindi systur sinnar. Stuðningurinn hafi komið úr öllum áttum og allir tilbúnir að leggjast á eitt til þess að styrkja hana fyrir hlaupið og sýna fjölskyldunni stuðning.
„Við erum líka með litlar vinkonur Ólavíu af leikskólanum sem ætla líka að hlaupa þrjá kílómetra sem er mjög skemmtilegt,“ segir Olga Katrín og því ljóst að samstaðan er mjög mikil, bæði hjá ungum sem öldnum.
„Við búum á Akranesi og manni hefur fundist þetta svo einkennandi fyrir bæinn sem við búum í. Ef eitthvað kemur upp á standa allir saman, sama hversu náinn maður er fólkinu eða ekki.“
Reykjavíkurmaraþonið fer fram þann 24. ágúst næstkomandi. Styrktarsíðu Olgu Katrínar má finna hér.