Innlent

Björn Leví bíður svars við fjölda fyrirspurna

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Fjöldi þingmanna bíður enn svara við fyrirspurnum nú þegar þingi fer að ljúka.
Fjöldi þingmanna bíður enn svara við fyrirspurnum nú þegar þingi fer að ljúka. Fréttablaðið/Anton Brink
Á annað hundrað fyrirspurnum alþingismanna til ráðherra er enn ósvarað nú þegar þingið er á lokametrunum. Fyrirspurnum sem beint er til ráðherra með beiðni um skriflegt svar ber að svara innan tíu virkra daga. Margar fyrirspurnanna sem enn er ósvarað eru frá fyrstu vikum ársins og nokkrar frá því fyrir áramót. Fyrirspurnir sem ekki hefur verið svarað falla niður við þinglok og þingmenn þurfa að leggja þær aftur fram í upphafi nýs þings vilji þeir enn fá svör við spurningum sínum.

Fyrirspurnaþunginn er mjög mismikill eftir ráðuneytum. Fjármála- og efnahagsráðherra á flestum fyrirspurnum enn ósvarað, alls 29. Sú elsta er frá því í september á síðasta ári frá Óla Birni Kárasyni um breytingar á sköttum og gjöldum.

Tuttugu fyrirspurnir bíða menntamálaráðherra. Tvær eru frá því í fyrra. Sú eldri einnig frá Óla Birni Kárasyni um ríkisútvarpið og þjónustusamninga. Hún var lögð fram í september.

Hjá dómsmálaráðherra bíða 19 fyrirspurnir svara. Þær elstu frá því í mars. Meðal þeirra er fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar um kaupendur fullnustueigna Íbúða­lánasjóðs og fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur um kostnað vegna skipunar dómara við Landsrétt.

Fjórtán fyrirspurnir liggja ósvaraðar hjá heilbrigðisráðherra. Þar eru hins vegar ekki eins gamlar syndir og víða annars staðar. Elstu fyrirspurnirnar eru dagsettar í apríl.

Elstu fyrirspurnirnar sem bíða á borði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eru frá því í mars á þessu ári. Þær eru frá Ingu Sæland og varða allar fiskeldi; um rekstrarleyfi, sjókvíaeldi og laxalús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×