John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, fordæmdi nýlegar eldflaugatilraunir Norður-Kóreu og sagði þær brjóta gegn ályktunum Sameinuðu þjóðanna í gær.
Trump virtist vísa þeim áhyggjum á bug í tísti sem hann sendi frá sér skömmu eftir að hann kom í opinbera heimsókn til Japans. Gestgjafi hans, Shinzo Abe, forsætisráðherra, hafði einnig lýst áhyggjum af vopnabrölti Norður-Kóreumanna í síðustu viku, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
„Norður-Kórea skaut nokkrum litlum vopnum, sem hafa valdið einhverju af fólkinu mínu áhyggjum, en ekki mér. Ég hef trú á því að Kim formaður muni halda loforð sitt til mín,“ tísti Bandaríkjaforseti.
North Korea fired off some small weapons, which disturbed some of my people, and others, but not me. I have confidence that Chairman Kim will keep his promise to me, & also smiled when he called Swampman Joe Biden a low IQ individual, & worse. Perhaps that's sending me a signal?
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 26, 2019
Fyrr á þessu ári fríaði Trump Kim ábyrgð á meðferðinni á Otto Warmbier, bandarískum námsmanni, sem var fangelsaður í Norður-Kóreu. Warmbier lést skömmu eftir að honum var sleppt og leyft að fara til Bandaríkjanna en hann var þá í dái vegna alvarlegs heilaskaða sem hann hafði orðið fyrir í haldi stjórnvalda í Pjongjang.
„Ég trúi ekki að hann [Kim] hefði leyft þessu að gerast. Það var ekki í hans hag. Þessi fangelsi eru erfið, erfiðir staðir og slæmir hlutir gerast. En ég trúi því í rauninni ekki að hann, ég trúi ekki að hann hafi vitað af því,“ sagði Trump á sameiginlegum blaðamannafundi hans og Kim í Víetnam þegar fréttamenn reyndu að spyrja þann síðarnefnda út í dauða Warmbier.
Í tísti sínu í dag lýsti Bandaríkjaforseti einnig ánægju með að norðurkóresk stjórnvöld hefðu látið fúkyrðum rigna yfir Biden, fyrrverandi varaforseta. Biden er talinn líklegur til sigurs í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.
„Ég brosti líka þegar hann kallaði mýrarmanninn Joe Biden einstakling með lága greindarvísitölu, og verra. Kannski er það að senda mér skilaboð?“ tísti Trump en í upphaflegri útgáfu þess stafsetti forsetinn ættarnafn Biden rangt.
Ekki er ljóst hvað hann átti við með skilaboðin sem Kim gæti verið að senda honum.