Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur farið fram á við þingið að fjárveitingar til Geimvísindastofnunnar Bandaríkjanna, NASA, verði auknar um 1,6 milljarð dala. Það verði gert til að hjálpa til við það markmið ríkisstjórnarinnar að senda menn til tunglsins fyrir árið 2024.
Trump tilkynnti þetta á Twitter í gær en með þessari aukningu myndu fjárveitingar til NASA verða 22,6 milljarðar á næsta ári. Reuters segir að aukningin muni að mestu verða notuð til að þróa nýtt lendingarfar fyrir tunglið.
Yfirvöld Bandaríkjanna hafa frá árinu 2017 ætlað að lenda mönnum aftur á tunglinu. Fyrr á þessu ári kallaði Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, eftir því að Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) sendi menn til tunglsins á fimm árum. Nú í sumar verða liðin 50 ár frá því að menn lentu fyrst á tunglinu og var það gert síðast árið 1972.
Verkefnið ber heitið Artemis í höfuðið á grískri gyðju sem var systir guðsins Appolo. Artemis er einmitt gyðja tunglsins í grískri goðafræði.
ARTEMIS: Twin sister of Apollo and goddess of the Moon. Now, the name for our #Moon2024 mission to return @NASA_Astronauts to the surface of the Moon by 2024, including the first woman and next man. pic.twitter.com/1K9qIloZwp
— NASA (@NASA) May 13, 2019
Með því að skjóta geimförum af stað frá tunglinu í stað yfirborðs jarðarinnar væri hægt að spara mikið eldsneyti og í senn gera geimförum kleift að fljúga hraðar. Sérstaklega stendur til að nota tunglið sem stökkpall til Mars. Til að byrja með.
NASA birti myndband í gær þar sem Jim Bridenstein, yfirmaður stofnunarinnar, stiklar á stóru yfir þau verkefni sem NASA stendur frammi fyrir og hvernig þessi aukna fjárveiting geti hjálpað til. Hún hefur þó auðvitað ekki verið samþykkt enn.