Lífið

Hatari skálaði í kampavíni í sundlaugargarðinum

Benedikt Bóas og Ingólfur Grétarsson skrifa
Íslensku keppendurnir eru eftirsóttir af fjölmiðlum.
Íslensku keppendurnir eru eftirsóttir af fjölmiðlum. Fréttablaðið/ingólfur Grétarsson
Liðsmenn Hatara fengu verðskuldaðan frídag í gær og nutu lífsins í Tel Avív. Flestir í faðmi fjölskyldu og ástvina sinna. Klemens, Matthías og Gimpið þurftu reyndar að vakna eldsnemma til að mæta í viðtal hjá BBC og Piers Morgan, en aðrir sváfu út og reyndu að safna orku fyrir komandi átök.

Það var spenna í lofti þegar keppnisdagurinn rann loks upp. Útsendarar Fréttablaðsins skelltu sér í svokallað Eurovision Fanzone. Stemningin yfir íslenska laginu var slík, að þegar fyrsti tónninn kom fögnuðu nánast allir af þeim tugþúsundum sem þarna var samankomin af lífs og sálar kröftum. Sumir hreinlega spruttu upp og dönsuðu allan tímann með.

Þegar laginu lauk trylltist mannskapurinn og þó ég sé vissulega hlutdrægur, þá fullyrði ég að fagnaðarlætin eftir Hatara voru langtum meiri en eftir önnur lög.

Eftir að Ísland komst áfram, fóru þreyttir en glaðir liðsmenn Hatara heim á hótel þar sem fjölskyldur þeirra tóku á móti þeim. Var haldið upp á sundlaugargarð þar sem kampavínsflöskur voru opnaðar og skálað fyrir árangrinum. Ástralska sendinefndin gerði slíkt hið sama en frændur vorir Finnar drekktu sorgum sínum á neðstu hæð hótelsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×