Erlent

Norrænir blaðamenn óttast um öryggi sitt og yfirgefa blaðamannahöllina

Kolbeinn Tumi Daðason í blaðamannahöllinni í Tel Aviv skrifar
Úr blaðamannahöllinni þegar hálftími er í að úrslitakvöldið hefjist.
Úr blaðamannahöllinni þegar hálftími er í að úrslitakvöldið hefjist. Vísir/SÁP
Danskir, sænskir og norskir blaðamenn sem staddir eru í Tel Aviv til að flytja fréttir af Eurovision hafa yfirgefið blaðamannaaðstöðuna sem er í stóru vöruhúsi í næstu byggingu við keppnishöllina.

Aftonbladet greindi frá því á fimmtudagskvöld að tveir óþekktir aðilar hefðu komist inn á lokað svæði blaðamanna. Aðeins er einn inngangur að blaðamannaaðstöðunni þar sem blaðamenn þurfa að skrá sig inn og skanna búnað sinn.

Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva segja í tilkynningu að farið hafi verið yfir uppákomuna og reynt að koma í veg fyrir að þetta geti gerst aftur.

Merkja má meiri sýnilega öryggisgæslu við blaðamannaaðstöðuna og á svæðinu yfir höfuð í dag. Betur er skoðað hvort allir séu ekki með til þess gerða blaðamannapassa um hálsinn.

Þetta hefur ekki komið í veg fyrir að fjöldi norrænna blaðamanna hefur yfirgefið blaðamannahöllina því þeir telja öryggi sínu ógnað. Danska pressan virðist öll hafa yfirgefið höllina. Venjulega eru sænsku blaðamennir fjölmargir en þeir eru aðeins fjórir í höllinni þessa stundina.

Enginn íslenskur blaðamaður hefur ákveðið að yfirgefa höllina en sem komið er. Hér er þröngt á þingi og mikil eftirvænting í loftinu.

Fjórir sænskir blaðamenn standa vaktina á meðal blaðamanna. Einn þeirra sænsku tjáði Vísi að hann hefði rætt við ritstjóra sinn heima í Svíþjóð og niðurstaðan verið að vera um kyrrt.Vísir/SÁP
Öryggisvörður við innganginn í höllina.Vísir/SÁP
Danska borðið í pressuhöllinni stendur autt.Vísir/SÁP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×