Móðir söngvarans, Cindy McClellan, segir í samtali við Fox News að Carter hafi óvart hleypt af byssu sem hann var með í vasanum og hafnaði skotið í höfði hans. Byssan var notuð sem leikmunur í tökum á myndbandinu.
McClellan segir son sinn hafa verið frábæran listamann og manneskja. Þá hafi hann verið mjög trúaður. „Hann var með biblíu í svefnherberginu, upptökustúdíóinu og í bílnum,“ segir McClellan.
People, USA Today, Entertainment Weekly og fleiri bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað um lát Carter og lýsa honum sem söngvara „á uppleið“. Hann hafði nýverið undirritað útgáfusamning við Triple Threat Management og hafði hann í hyggju að fara á tónleikaferðalag um fjögur ríki Bandaríkjanna.
Meðal þekktustu laga söngvarans má nefna Perfect, Nu Breed og Love Affair. Tónlistarmyndband við lagið Perfect var frumsýnt fyrr í þessum mánuði þar sem hann notaðist einnig við skotvopn sem leikmun.
Carter lætur eftir sig tvær dætur, Dixie og Kaylee.