Erlent

Fundu vannærð börn í hundabúri

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd tekin úr þyrlu sem sýnir hluta landareignarinnar þar sem börnin fundust.
Mynd tekin úr þyrlu sem sýnir hluta landareignarinnar þar sem börnin fundust. Vísir/AP
Lögregluþjónar í Texas fundu í dag tvö vannærð börn sem höfðu verið læst í hundabúri í hlöðu. Tvö önnur börn voru í hlöðunni og voru þau þakin skít og hlandi. Lane Akin, fógeti í Wise sýslu, segir þetta versta slíka mál sem hann hafi komið að á 44 ára ferli sínum.

Hlöðunni hafði verið breytt, illa, í íbúð og fógetinn segir börnin hafa verið þyrst og svöng þegar lögregluþjóna bar að garði í morgun. Nægur matur var í hlöðunni en hann hafði verið læstur inn í ísskáp.

Um er ræða þrjá drengi sem eru eins árs, þriggja og fimm ára og eina stúlku sem er fjögurra ára gömul. Elstu börnin voru læst í smáu búri og hin voru illa klædd.

Samkvæmt AP fréttaveitunni voru lögregluþjónar kallaðir á vettvang vegna heimiliserja. Þegar þeir voru að ræða við konu og karl á þrítugsaldri heyrðu þeir raddir úr hlöðunni. Konan er móðir allra barnanna og maðurinn er faðir eins þeirra.



Parið var handtekið og þau hafa verið ákærð fyrir illa meðferð á börnum. Börnin voru flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. Barnavernd hafði haft afskipti af fjölskyldunni áður en ekki á sveitabænum sem þau búa nú á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×