Lífið

Hefur fengið sig fullsadda á orðrómi um að tvífari hafi tekið hennar stað

Birgir Olgeirsson skrifar
Avril Lavigne á að hafa dáið snemma á síðasta áratug samkvæmt orðróminum.
Avril Lavigne á að hafa dáið snemma á síðasta áratug samkvæmt orðróminum. Vísir/Getty
Fyrir nokkrum árum komst af stað orðrómur þess efnis að kanadíska tónlistarkonan Avril Lavigne væri í raun látin og að tvífari hefði tekið hennar stað.

Var því haldið fram að Lavigne hefði fengið nóg af sviðsljósinu og ráðið tvífara til að mæta á opinbera viðburði. Átti Lavigne síðan að hafa látið lífið einhvern tímann á milli áranna 2002 til 2004 og útgáfufyrirtæki hennar ákveðið að ráða tvífarann til að ganga í stað Lavigne til frambúðar.

Þessi orðrómur er rakin aftur til ársins 2005 og talin eiga uppruna á brasilískum aðdáendavef söngkonunnar. Lavigne til mikillar mæðu skýtur þessi orðrómur reglulega upp kollinum og hefur hún fengið sig fullsadda á honum.

Avril Lavigne árið 2002.Vísir/Getty
Margir hafa fært fyrir því rök að hæð söngkonunnar hafi breyst sem og nef og stíll. Töldu margir sig einnig geta lesið í lagatextunum hennar vísbendingar um að tvífari hafi tekið hennar stað.

„Þetta er bara heimskulegur internetorðrómur og ég er gáttuð á því að fólk hafi keypt þetta. Er það ekki rosalega skrýtið,“ segir Lavigne í samtali við Entertainment Weekly.

Lavigne er fædd árið 1984 en átján ára gömul sló hún í gegn á heimsvísu með plötunni Let Go. Síðan þá hefur hún selt fjörutíu milljónir platna og fimmtíu milljónir smáskífa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×