Vladímír Pútín, forseti Rússlands, segir að Rússar ætli að hefja framleiðslu á nýjum meðaldrægum eldflaugum sem geta borið kjarnaodda eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti í gær að hún ætlaði að segja sig frá sáttmála ríkjanna um að bann við þeim.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vísaði til þess að Rússar hefðu lengi hunsað ákvæði INF-sáttmálans sem Bandaríkjamenn og Sovétmenn skrifuðu undir árið 1987. Sáttmálinn bannað notkun skamm- og meðaldrægra eldflauga.
„Bandarískir félagar okkar tilkynntu að þeir ætluðu að hætta þátttöku í sáttmálanum og við ætlum að hætta henni líka,“ sagði Pútín í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, lýsti stuðningi við Bandaríkjastjórn í dag. Sakaði hann Rússa um að senda sífellt fleiri eldflaugar sem geta borið kjarnavopn til Evrópu. Rússar hafa hafnað því að þeir brjóti gegn ákvæðum sáttmálans.
