Skoðun

Þorrahlaup Þórlinds

Árni Björnsson skrifar
Ég sé mig knúinn til að gera alvarlega athugasemd við pistil Þórlinds Kjartanssonar á 9. síðu Fréttablaðsins 25. janúar 2019. Þar segir hann að ruglið um hlaup bónda kringum bæ sinn á fyrsta degi Þorra sé runnið frá sagnfræðingnum síra Jóni Halldórssyni sem var prestur í Hítardal 1692-1736. Vitnað er í bók mína, Sögu daganna 1993, sem heimild.

Reyndin er sú að Jón Halldórsson svaraði fyrirspurnum frá vini sínum Árna Magnússyni í Kaupmannahöfn 30. september 1728. Klausan um að bjóða Þorra, Góu, Einmánuði og Hörpu í garð er í nefndri bók minni birt á bls. 437-438. Þar er hvergi minnst á hlaup kringum bæ.

Jón Árnason fær 130 árum síðar spuna um þvílík hlaup frá ónafngreindum heimildamanni og birtir hann í seinna bindi þjóðsagna sinna 1864. Í bók minni er hún á bls. 440. Þessi spaugilega frásögn hefur orðið vinsæl, en það hefur ekki fundist ein einasta haldbær heimild um að þetta hafi gerst í alvörunni þrátt fyrir ítarlegar eftirgrennslanir. Frá þeim greini ég á bls. 444-446. Ef þetta er ekki algjör uppspuni einhvers grínista, er trúlegasta skýringin sú að um sé að ræða aldagömul minningabrot frá þeim tíma þegar ríkismenn höfðu enn raunverulegar baðstofur eða sánur í bæjarhúsum sínum. Algengt er að menn hlaupi út úr þeim öðru hverju til að kæla sig. Og það er ekki ólíklegt að menn hafi á miðöldum einmitt fagnað Þorra í sánu.

Það gerir lítið til þótt mín orð séu rangfærð. Ég get enn birt leiðréttingu. Hitt er verra ef mætum fyrri alda fræðimanni eins og Jóni Halldórssyni í Hítardal er eignað eitthvert rugl.

Höfundur er doktor í menningarsögu


Tengdar fréttir

Fyrsta íslenska trollið

Eflaust hefðu margir útlendingar rekið upp stór augu í morgun ef þeir voru snemma á vappi.




Skoðun

Sjá meira


×