Pétur verður í aðalhlutverki í þáttunum og Ragnar framleiðir. Nú leita þeir að góðum tökustöðum um land allt og hvetja landsmenn til að senda inn ábendingar um draugahús eða eyðibýli úti á landi þar sem Pétur getur gist yfir nótt.
Fyrirkomulagið verður á þá leið að Pétur Jóhann mun gista með landsþekktum Íslendingi í draugahúsi yfir nótt og verður leitað að draugum.
Ábendingar um skemmtilega tökustaði má senda á draugar@stod2.is og hefjast tökur í febrúar.
Pétur mun styðjast við lýsingar landsmanna og þeirra sem senda inn ábendingar.

„Ég er mjög svona ónæmur maður á svona framhaldslíf og hef aldrei upplifað draugagang og eitthvað sem fólk telur vera yfirnáttúrulegt,“ segir Pétur og hlakkar nokkuð til verkefnisins.
„Það er svolítið vegferðin sem ég er að fara í og spurning hvort ég eigi eftir að upplifa einhvern draugagang, í fyrsta sinn á ævinni.“
Pétur Jóhann segir að Ragnar Eyþórsson, framleiðandi, sé aftur á móti frekar næmur á svona hluti.
„Ég fór að segja honum frá að mig langaði að gista á eyðibýli þar sem enginn er búinn að búa í mörg ár og helst að fólk hefði hrakist í burtu. Ég bara með svefnpoka og kertaljós. Það er það sem er að fara gerast, ég í eina nótt með gesti. Raggi telur sig hafa upplifað svona hluti en ég verð ekki í Ghostbustersgalla í þessum þáttum, eða líklega ekki,“ segir Pétur léttur að lokum.