Álag á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi jókst til muna 1. desember síðastliðinn þegar bráðamóttaka hjartagáttar var færð frá Landspítalanum við Hringbraut og í Fossvog.
Forstjóri spítalans hafði miklar áhyggjur af ástandinu í pistli sem hann skrifaði eftir að þjónustan var færð og í fyrstu viku desembermánaðar var rúmanýting 117% prósent.
Í pistlinum sagði forstjórinn að við þær aðstæður sé augljóst að öryggi sjúklinga er ekki tryggt og því var Embætti landlæknis og Velferðarráðuneytinu gert viðvart.

Von á hlutaúttekt frá Embætti Landlæknis
„Það er auðvitað bara grafalvarlegt ef svo er og er verkefni spítalans að horfast í augu þá stöðu ef hún er þannig,“ segir Svandís Svavarsdóttir.Rétt fyrir jól sendi Landlæknir frá sér drög að áliti vegna ástandsins en þar var bent á tiltekin atriði sem Landlæknir telur að ráðast megi strax í að laga.
„Þetta er auðvitað miklu flóknara en svo að þetta snúist um einn eða tvo þætti eða eina eða tvær ákvarðanir,“ segir Svandís.
Svandís segir að þetta snúist um mönnun, húsnæði, samskil og fráflæði til hjúkrunarheimila, viðveru sérfræðilækna, stöðu sjúkraliða og fjölda þeirra, samspil við heilsugæsluna og svo framvegis. Von er á að hlutaúttekt Landlæknis á starfsemi bráðamóttökunnar verði skilað í lokaútgáfu til ráðherra í komandi viku.
Formaður hjartaheilla hefur lyst yfir miklum áhyggjum með þær breytingar sem gerðar hafa verið á bráðamóttöku hjartagáttar og segir þær tefja meðferð sjúklinga sem þurfa á sérhæfðri meðferð að halda.
„Það er náttúrulega faglegt mat Landspítalans sem er lagt til grundvallar svona ákvörðun og það er eina leiðin fyrir okkur er að styðja það faglega mat. Ákvarðanir af þessu tagi, þær þurfa stöðugrar endurskoðunar við, og ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé lagt mat á það, ekki of seint, hvernig þetta hefur gefist og hvort að breytingin hafi verið á kostnað þjónustunnar eða hvort hún sé jafn öflug og hún var þegar hún var við Hringbraut,“ segðir Svandís.