Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping sættust á „vopnahlé“ í tollastríðinu svokallaða með því að fresta innleiðingu nýrra verndartolla. Það er þó einungis tímabundið og mun halda í 90 daga á meðan viðræðurnar fara fram.
Nái leiðtogarnir viðunanandi samningum gæti vel verið að þeir hverfi alfarið frá innleiðingu tollanna.
Þetta er afrakstur leiðtogafundarins G-20 sem fór fram í Buenos Aires í Argentínu í gær.
Áður en leiðtogafundurinn fór fram var haft eftir Bandaríkjaforseta að hann hyggðist hækka tolla á kínverskar vörur þegar nýja árið gengi í garð að andvirði 200 milljarða bandaríkjadala. Á fundi þeirra Trumps og Jinpings samdi hinn fyrrnefndi um að hætta við þau áform tímabundið. Þetta hefði þýtt hækkun tolla úr 10% í 25%.
Þetta var í fyrsta sinn sem leiðtogarnir tveir mættust augnliti til augnlitis frá því tollastríðið skall á snemma á þessu ári en tollastríðið hefur haft víðtæk áhrif í heimi viðskiptanna.
Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu kemur fram að tollar á kínverskan varning verði óbreyttir í 90 daga en komist þjóðarleiðtogarnir tveir ekki að niðurstöðu á þeim tíma munu Bandaríkjaforseti standa við innleiðngu hækkunarinnar.
