Skoðun

Virkjum vináttuna! Ertu búin að skrá hópinn þinn?

Halla Þorvaldsdóttir skrifar

Við, konur á Íslandi, njótum þeirra forréttinda að hér á landi býðst okkur reglubundin skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Skimunin hefur dregið mjög úr tilfellum leghálskrabbameina hér á landi og á einnig verulegan þátt í því að dregið hefur úr dánartíðni af völdum brjóstakrabbameina.

Þátttaka kvenna í skimun fyrir krabbameinum hefur því miður farið minnkandi undanfarin ár. Þessari þróun vill Krabbameins­félagið snúa við. Niðurstöður kannana sem félagið hefur gert benda til þess að helsta ástæðan fyrir minnkandi þátttöku í skimun sé framtaksleysi eða frestun. Viðbrögð við nýlegri auglýsingaherferð Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins og áminningu í Bleiku slaufunni hafa þó verið mjög góð og bókunum í skimun hefur fjölgað mjög mikið. En betur má ef duga skal og finna þarf leiðir sem auka þátttöku kvenna til langframa.

Krabbameinsfélagið vill, í samvinnu við kvennahópa af hvaða tagi sem er, um land allt, hvetja konur til að mæta í skimun þegar þær fá boð um það. Samstöðukraftur kvenna er magnaður og reynslusögur kvenna sem tóku þátt í ljósmyndasýningu Bleiku slaufunnar (og lesa má á bleika­slaufan.is) vitna um dýrmætan stuðning vinkvenna við greiningu og í krabbameinsmeðferð. Í Bleiku slaufunni biðlar Krabbameinsfélagið til kvennahópanna og býður þeim að taka saman höndum við félagið um að auka þátttöku kvenna í skimun.

Hóparnir skrá sig á bleikaslaufan.is og tvisvar til þrisvar á ári fær hver hópur sendan tölvupóst frá félaginu með áminningu um að hvetja sínar konur til að mæta í skimun þegar þær fá boð. Einnig fylgir með fræðsla um þætti í daglegu lífi sem geta dregið úr líkum á að fá krabbamein.

Á Íslandi býðst konum á aldrinum 23-65 ára skimun fyrir krabbameini í leghálsi, á tveggja ára fresti og á aldrinum 40-69 ára skimun fyrir krabbameini í brjóstum, á þriggja ára fresti. Frekari upplýsingar um skimun má sjá á heimasíðu félagsins, krabb.is.

Á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands taka sérþjálfaðar ljósmæður öll leghálsstrok og kvengeislafræðingar taka röntgenmyndir af brjóstum. Skoðanirnar taka stuttan tíma, biðtími er mjög lítill og að jafnaði líða einungis 10-15 mínútur frá því að konur koma í hús þar til þær eru farnar út aftur.

Ertu búin að skrá hópinn þinn? Einn hópur verður dreginn út þann 22. október og fær veglegan glaðning.




Skoðun

Sjá meira


×