Innlent

Kæra ákvörðun meirihlutans um knatthúsin í Hafnarfirði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Deilur hafa verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um knatthús.
Deilur hafa verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um knatthús. Vísir/Daníel
Fulltrúar minnihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hyggjast kæra ákvörðun meirihlutans um að kaupa tvö knatthús í bænum í stað þess að byggja nýtt knatthús í Kaplakrika. Þetta kemur fram í tilkynningu frá minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.

Sjá einnig: Óánægð með ákvarðanatöku í sumarleyfinu

Hafnarfjarðarbær hafði í hyggju að hefja byggingu nýs knatthúss í Kaplakrika í samvinnu við FH. Tvö knatthús eru fyrir á svæðinu og hafa framkvæmdirnar því verið umdeildar. Tilboðum í byggingu knatthússins var að lokum öllum hafnað þar eð þau þóttu of há en samþykkt hafði verið að veita 720 milljónum króna í bygginguna. Í stað nýbyggingarinnar ákvað Hafnarfjarðarbær að kaupa íþróttahúsin Risann og Dverginn af FH fyrir 790 milljónir króna.

Tillagan var samþykkt í síðustu viku og sátu fulltrúar minnihluta hjá.

„Á aukafundi sem haldinn var að kröfu minnihlutans fyrr í dag lagði minnihlutinn fram fjölda spurninga sem varða meðal annars meint ólögmæti ákvörðunarinnar og ekki hafa fengist svör við,“ segir í tilkynningu frá minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.

Setur minnihlutinn spurningamerki við að ákvörðun meirihlutans standist sveitarstjórnarlög, sérstaklega þau er varða ábyrga meðferð fjármuna af hálfu kjörinna fulltrúa. Verður ákvörðunin því kærð til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×