Víkingur Ólafsvík vígði nýjan gervigrasvöll með 3-0 sigri á Leikni úr Reykjavík en þrír leikir fóru fram í Inkasso-deildinni í kvöld.
Víkingur skoraði þrjú mörk í síðari hálfleik gegn Leikni. Alexander Helgi Sigurðsson skoraði fyrsta markið á 50. mínútu og þeir Emmanuel Keke og Kwame Quee bættu við sitt hvoru markinu í uppbótartíma.
Ólsarar eru komnir í fjórða sæti deildarinnar en þeir eru með þrettán stig, fjórum stigum á eftir toppliði ÍA. Leiknismenn eru hins vegar í tíunda sæti með sex stig.
Það var heldur betur fjör í grannaslag Magna og Þórs en Þór vann 2-1 sigur í leik liðanna á Grenivík í kvöld.
Bergvin Jóhannsson kom Magna yfir á 70. mínútu en einungis tveimur mínútum síðar fékk Agnar Darri Sverrisson sitt annað gula spjald. Magnamenn því einum færri.
Þórsarar voru ekki lengi að snúa leiknum sér í vil. Ívar Sigurbjörnsson skoraði sjálfsmark á 85. mínútu og staðan jöfn 1-1 en sigurmarkið skoraði Ignacio Gil þremur mínútum fyrir leikslok.
Þór er í þriðja sæti deildarinnar með fjórtán stig, stigi á eftir HK sem er í öðru sætinu og þremur stigum á eftir toppliði ÍA. Magnamenn eru á botninum með þrjú stig.
Minnsta fjörið var í toppslagnum í Inkasso en HK og ÍA skoruðu ekki mark í kvöld. Leik liðanna lauk með markalausu jafntefli og staða liðanna því óbreytt; Skagamenn á toppnum, stigi á undan HK sem er í öðru sætinu.
Úrslit og markaskorarar eru fengin frá fótbolti.net.
