Eineltispésinn úr NFL-deildinni, Richie Incognito, var handtekinn í líkamsræktarstöð á Flórída í vikunni alveg snarruglaður.
Incognito hélt að venjulegir borgarar á líkamsræktarstöðinni væru útsendarar ríkisins sem væru að elta hann og taka upp allt sem hann gerði.
Hann réðst á og hótaði fólki á líkamsræktarstöðinni. Hann kastaði lóðum og tennisboltum að fólki og mátti litlu muna að illa færi.
Incognito virðist vera að tapa glórunni eða hreinlega á sterkum efnum. Í viðtölum við lögreglu eftir handtökuna talaði hann tóma steypu og virtist vera ofsóknaróður.
Incognito varð heimsfrægur er upp komst að hann lagði liðsfélaga sinn í einelti. Hann fékk bann fyrir eineltið. Á dögunum lagði hann svo skóna á hilluna eftir ellefu ára feril í NFL-deildinni. Hann sagðist þó vera hættur við að hætta fyrir skömmu en enginn veit hvað gerist enda virkar hann ekki í góðu ástandi.
