Bandaríkjamenn opna nýtt sendiráð sitt í Jerúsalem í Ísrael í dag. Donald Trump forseti verður ekki viðstaddur opnunina en dóttir hans Ivanka og maki hennar, Jared Kushner, komu til Ísraels í gær.
Ákvörðun Bandaríkjamanna um að flytja sendiráð sitt frá Tel Avív, sem alþjóðasamfélagið álítur höfuðborg Ísraels, til Jerúsalem, sem Ísraelar segja höfuðborg sína, vakti mikla reiði þegar Trump tilkynnti um áform sín í fyrra.
Ákvörðunin er afar umdeild. Þegar Ísraelar og Palestínumenn sömdu um frið 1993 var tekið fram að framtíðarstaða Jerúsalem yrði viðfangsefni viðræðna í framtíðinni. Þær viðræður hafa ekki enn átt sér stað og þykir Trump því vera að slá vopnin úr höndum Palestínumanna sem líta á Austur-Jerúsalem sem höfuðborg sína.
Í desember síðastliðnum greiddi mikill meirihluti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna atkvæði með yfirlýsingu um að viðurkenning Bandaríkjanna á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels væri ógild og hefði ekkert vægi. Ísland studdi tillöguna en Gvatemala, Hondúras, Ísrael, Marshall-eyjar, Míkrónesía, Nárú, Palá, Tógó og Bandaríkin greiddu atkvæði gegn henni.
Sendiráð annarra ríkja eru almennt í Tel Avív. Munu sendiherrar flestra ESB-ríkja ekki verða viðstaddir opnun sendiráðsins í dag í mótmælaskyni. Hins vegar eiga Bandaríkjamenn von á erindrekum frá Ungverjalandi, Rúmeníu og Tékklandi.
