Víkingar úr Reykjavík eru komnir í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir sigur á Reyni Sandgerði suður með sjó í dag.
Vladimir Tufegdzic gaf gestunum úr Pepsi deildinni óskabyrjun með marki á 7. mínútu eftir fyrirgjöf Alex Freys Hilmarssonar. Það gekk þó erfiðlega hjá Víkingum að skapa sér fleiri færi í fyrri hálfleiknum þar sem vörn Reynis var vel skipulögð.
Víkingur sótti nær stanslaust allan leikinn en áfram héldu heimamenn skipulagi í varnarleiknum og þeir náðu að verjast öllum áhlaupum gestanna. Rothöggið kom svo undir lokin þegar Örvar Eggertsson skoraði annað mark Víkings á 90. mínútu. Hann slapp einn í gegnum vörn Reynis og lék á Rúnar Gissurarson í markinu.
2-0 sigur Víkings staðreynd og gestirnir áfram í 16-liða úrslitin á meðan bikarþáttöku Reynis er lokið þetta tímabilið.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara voru fengnar frá Fótbolti.net.

