Hinn skrautlegi eigandi Dallas Cowboys, Jerry Jones, hefur játað sig sigraðan í baráttunni við NFL-deildina og ætlar að opna veskið.
Jones hefur verið í mikilli baráttu við deildina. Fyrst út af banni hlaupara Kúrekanna, Ezekiel Elliott, og svo reyndi hann að koma í veg fyrir að deildin framlengdi samningi sínum við stjórnandann, Roger Goodell.
Jones þarf að greiða fyrir allan lögfræðikostnað vegna málanna en hann er rúmar 200 milljónir króna. Í fyrstu ætlaði Jones að berjast á móti þessu og jafnvel áfrýja. Hann hefur nú játað sig sigraðan og er farinn að hugsa um aðra hluti.
Þetta mál mun ekki bæta sambandið á milli Jones og Goodell sem var þó stirt fyrir. Jones er það ríkur að þessi sekt kemur ekkert sérstaklega illa við hann.
