Ónefndur maður sem græddi himinháar fjárhæðir á lokaúrslitunum í bandarísku hafnaboltadeildinni í haust gat leyft sér að fagna sigri Philadelphia Eagles í Super Bowl, úrslitaleik NFL-deildarinnar, í nótt.
Veðmálaundrið var að sögn ESPN með samtals sex milljón dollara, jafnvirði 600 milljónum króna, undir hjá ýmsum aðilum í Las Vegas. Í öllum tilvikum veðjaði hann á sigur Philadelphia Eagles.
Eagles vann í nótt sinn fyrsta Super Bowl titil frá upphafi er liðið lagði New England Patriots að velli, 41-33.
Sjá einnig: Veðmálaundrið setti milljón dollara á Eagles
Sami maður veðjaði á rétt úrslit í fyrstu sex leikjunum í World Series, lokaúrslitum MLB-deildarinnar, í haust en ákvað að hirða gróðann og veðja ekki á oddaleikinn í rimmunni.
Sjá einnig: Búinn að græða einn og hálfan milljarð á World Series
Hann hikaði þó ekki við að setja háar fjárhæðir á Eagles og það borgaði sig. Talið er að hann hafi fengið um tíu milljónir dollara fyrir hafnaboltaveðmálin sín í lok síðasta árs en að úrslit leiksins í nótt hafi skilað honum að minnsta kosti svo miklu og líklega gott betur.
New England þótti sigurstranglegri aðilinn í nótt en fullvíst er að mikið var veðjað á leikinn í Bandaríkjunum. Í fyrra var veðjað á Super Bowl fyrir samtals 138,4 milljónir dollara, sem var met, en talið er að sú tala gæti hækkað í ár.
Veðmálaundrið veðjaði minnst 600 milljónum króna á Eagles

Tengdar fréttir

Búinn að græða einn og hálfan milljarð á World Series
Veðmálaheimurinn er gapandi yfir frammistöðu manns í Las Vegas sem er að mokgræða á úrslitum MLB-deildarinnar í hafnabolta, World Series.

Veðmálaundrið veðjaði ekki á oddaleikinn
Maðurinn sem veðjaði rétt á fyrstu sex leikina í úrslitum bandaríska hafnaboltans, World Series, og græddi um leið einn og hálfan milljarð króna hefur fengið ótrúlega fjölmiðlaumfjöllun.

Veðmálaundrið setti milljón dollara á Eagles
Ónefndur veðmálafíkill í Las Vegas vakti mikla athygli er hann veðjaði rétt á ótrúlega úrslitarimmu í bandarísku hafnaboltadeildinni, MLB. Hann er nú búinn að setja pening á Super Bowl-leikinn.