Fjögur þúsund mál eru til meðferðar hjá ákærusviðinu og eru umferðarmálin stærsti brotaflokkurinn. „Flest málin eru frá 2016 en við erum samt með einhver eldri mál líka,“ segir Hulda Elsa og tekur þá fram að einhverjar skýringar séu á að eldri mál hafi ekki verið afgreidd. „Ég hef verið með örfá mál sem eru frá 2014 og oft eru þá skýringarnar þær að verið sé að taka upp rannsókn að nýju. En annars eru þetta flest mál frá 2016.“

Hulda segir að þegar ákærusviðið sé fullmannað eigi að vera þar átján lögfræðingar, en þeir eru núna fjórtán. „Við eigum að vera átján en það hafa verið miklar breytingar á sviðinu af því að það eru breytingar í kerfinu. Um leið og það eru breytingar í kerfinu, þá fer boltinn af stað. Við erum akkúrat í því ferli núna. Þannig losnaði staða hjá ríkissaksóknara og þá losnaði staða hjá héraðssaksóknara.“
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir málum líka vera að fjölga. Nefnir hún þar heimilisofbeldismál sérstaklega, en lögreglan fær 58 slík mál á sitt borð í hverjum mánuði. „Það hefur líka fjölgað kynferðisbrotamálum og líkamsárásum,“ segir hún.
Á ráðstefnu í Háskólanum í Reykjavík á föstudaginn sagði Sigríður Björk að verið væri að gera áherslubreytingar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kynferðisbrot eru nú yfirlýstur áherslumálaflokkur.
Málategundum sem lögreglumenn í deildinni fást við hefur verið fækkað. Áhersla hefur verið lögð á aukna fræðslu til starfsmanna, aðstoðarsaksóknari ráðinn í deildina og lögreglumönnum verið fjölgað.