Umræðan um mótmæli leikmanna NFL-deildarinnar meðan þjóðsöngurinn er spilaður fyrir leiki fór í enn eina áttina um nýliðna helgi.
Nánast allir leikmenn Houston Texans fóru þá niður á hné fyrir leikinn gegn Seattle. Það var þó aðallega til þess að mótmæla eiganda félagsins, Bob McNair.
Eigendur NFL-liðanna funduðu um mótmælin síðasta föstudag og þá sagði McNair að það gengi ekki að fangarnir stýrðu fangelsinu. Þau ummæli fóru heldur betur illa í leikmenn liðsins og einhverjir skrópuðu á æfingu sama dag í mótmælaskyni.
McNair hefur reynt að klóra í bakkann og baðst afsökunar á ummælum sínum.
„Ég var ekki að tala um leikmenn liðsins er ég sagði hluti sem ég sé mikið eftir,“ sagði McNair en ekki er víst að það dugi til.

