Skoðun

Iðnnám er töff

Ágúst Már Garðarsson skrifar
Það er töff að læra praktíska iðngrein og verða góður í henni, það getur farið með mann á merkilega staði og veitt manni mikla innsýn inn í samfélagið.

Ég er kokkur, pabbi er blikksmiður og afi minn var pípari, bróðir pabba er líka húsasmiður, ég er úr fjölskyldu fjölbreyttra iðngreina. Einnig eru iðnnemar og iðnaðarmenn dýrmætir til að halda við faglegum vinnubrögðum og framleiðni á uppgangstímum. Mitt iðnnám hefur verið mér ótrúlega dýrmætt og gefið mér tækifæri til að starfa innan ótrúlega mismunandi geira allt frá leikskólum og skólum Hjallastefnunnar til alþjóðlegra fyrirtækja eins og Icelandair og Marel, og þá meina ég alls ekki að leikskólarnir séu neðarlega á virðingarstiganum, þvert á móti lærði ég ótrúlega margt þar.

Yfirvöld þurfa að gera gangskör í að endurvekja virðingu og vinsældir iðnnáms því að ásamt hátæknimenntun munu iðngreinar líklegast lifa af og verða mikilvægur þáttur í sjálfvirknivæðingunni sem nú fer að skella á okkur(og ég verð vitni að hér hjá Marel frá fyrstu hendi). Kokkar, bakarar, pípulagningamenn, smiðir, rafvirkjar, þjónar, blikksmiðir og svo margar iðngreinar eru undirstaða framkvæmda og framþróunar í samfélaginu og undirstaða vandaðra vinnubragða og gæða.

En við sem samfélag þurfum líka að breyta hugarfari okkar til iðnnáms og vera opin fyrir að börnin okkar fari líka þá leið jafnt sem hina hefðbundnari leið menntaskóla og háskóla. Við þurfum að skoða viðhorf okkar til iðngreina upp á nýtt.

Einnig þarf ríkið að styrkja innviði iðngreina og aðbúnað, ásamt því að gera námið aðgengilegra og fýsilegra. Alls staðar  þar sem það hefur verið gert hefur fagmennska og gæði iðnámsins aukist til muna. Til þess býð ég mig fram meðal annars og mun berjast fyrir upphafningu iðngreina til vegs og virðingar. Ég er stoltur iðnaðarmaður.

Höfundur er matreiðslumaður Marel, fv. varaborgarfulltrúi og frambjóðandi Bjartrar Framtíðar í 4. sæti Reykjavík norður.




Skoðun

Sjá meira


×