Innlent

Björt íhugar að taka upp auðlindagjöld

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra. Vísir/Vilhelm
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir til greina koma að taka upp auðlindagjöld og ætlar að leggja mat á þann möguleika á næstunni. Hún segir eðlilegt að þeir aðilar sem nýta gæði lands, sem sé í sameign þjóðarinnar, og selji til þriðja aðila greiði gjald af þeirri nýtingu.

„Ráðherra hyggst leggja mat á þann möguleika að taka upp auðlindagjöld fyrir nýtingu náttúruauðlinda landsins í sameign þjóðarinnar, svo sem í tengslum við orkuvinnslu, námuvinnslu og nýtingu ferðaþjónustu á sérstæðri náttúru þar sem um takmörkuð gæði gæti verið að ræða," segir Björt í skriflegu svari við fyrirspurn Lilju Sigurðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um auðlindir og auðlindagjald.

Björt tekur fram í svari sínu að ekki allar náttúruauðlindir falli undir hennar ráðuneyti, en að hún hyggist beita sér fyrir vinnu í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti við að greina hvernig réttindum til nýtingar náttúruauðlinda sé háttað, gagnsæi í úthlutun réttinda og sjálfbærni nýtingarinnar, meðal annars í samhengi við ákvæði um auðlindamál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Auðlindagjald í formi skattlagningar er aðeins lagt á auðlindir sjávar samkvæmt núgildandi lögum. Þá eru einnig innheimt ýmis gjöld, svo sem fyrir þjónustu eða aðgang að opinberum náttúruauðlindum, til dæmis vegna hreindýra og veiðikrta vegna aðgangs til veiða á dýrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×