Víkingur og KR tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Reykjavíkurmóts karla í fótbolta.
Víkingar unnu 3-1 sigur á Fram og unnu með því A-riðilinn með tíu stig í húsi af tólf mögulegum.
Fram þyrfti sigur til að komast áfram eða treysta á það að ÍR tæki stig af KR. KR vann hinsvegar 3-1 sigur á ÍR og fylgir Víkingunum í undanúrslitin.
Örvar Eggertsson, Vladimir Tufegdzic og Viktor Örlygur Andrason skoruðu mörk Víkinga í kvöld en Alex Freyr Elísson jafnaði metin í 1-1 með marki úr vítaspyrnu.
Víkingar mæta Val í undanúrslitunum en KR spilar við Fjölni en Grafarvogspiltar unnu B-riðilinn.
