Innlent

Ósáttir við nýtt frumvarp til fjárlaga

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka við gerð flughlaðs við Akureyrarflugvöll sem hér má sjá.
Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka við gerð flughlaðs við Akureyrarflugvöll sem hér má sjá. vísir/pjetur
Bæjarstjórn Akureyrar gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp til fjárlaga ársins 2017. Furðar bæjarstjórnin sig á því að í frumvarpinu sé ekki tekið tillit til nýrrar samgönguáætlunar sem samþykkt var á Alþingi þann 12. október síðastliðinn.

„Af því leiðir að ekki er gert ráð fyrir fjármagni frá ríkinu til kaupa á nýjum hafnsögubáti fyrir Hafnasamlag Norðurlands, þrátt fyrir að nú liggi fyrir tilboð í smíði bátsins sem búið er að samþykkja og bíður undirritunar,“ segir í bókun bæjarstjórnar.

Þá segir einnig að ekki sé gert ráð yfir fjármagni til að ljúka við gerð flughlaðs við Akureyrarflugvöll. Það sé mikilvægt verkefni vegna flugöryggis yfir Íslandi og atvinnuuppbyggingar á Akureyri.

„Það er algjörlega óviðunandi að ekki sé staðið við fyrri ákvarðanir Alþingis um að fjármagna þessar framkvæmdir í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga 2017,“ segir í niðurlagi bókunarinnar sem var samþykkt með ellefu samhljóða atkvæðum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×