Innlent

Guðni Th.: Þurfum að einhenda okkur í það að skipa landinu ríkisstjórn

Heimir Már Pétursson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Forseti Íslands segist hafa ákveðið að bíða með næstu skref varðandi stjórnarmyndunarumboð eftir að Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata skilaði umboðinu. Það hefði getað truflað bæði þingstörf og stjórnarmyndunartilraunir ef þingmenn hefðu þurft að eiga við bæði verkefnin á þeim stutta tíma sem Alþingi hafði til að setja fjárlög.

Guðni Th. Jóhannesson veitti Stöð 2 viðtal fyrr í dag um stöðuna í stjórnmálum landsins. Hann reiknar ekki með að veita neinum leiðtoga stjórnmálaflokkanna umboð til stjórnarmyndunar yfir jóladagana. Hann ítrekar hins vegar að leiðtogar stjórnmálaflokkanna geti hvenær sem er komið sér saman um myndun meirihlutastjórnar.

Forsetinn er ánægður með þann anda sem ríkti á Alþingi síðustu tvær vikurnar og segir marga hafa haft það á orði við sig að svona ætti Alþingi að starfa. En töluvert vantaði upp á traust almennings til Alþingis eftir hrun.

„Þannig að ég áleit að það væri ekki hundrað í hættunni þótt við dokuðum aðeins í stjórnarmyndunarviðræðum og leyfðum þingmönnum og stjórnmálaforingjum öllum að einbeita sér að störfum þingsins og við sáum einmitt óvenju góðan starfsanda í þinginu. Auðvitað eru aldrei allir ánægðir með niðurstöðu mála þegar fjárlög eru afgreidd en framgangsmátinn, málsmeðferðin... Ég hef heyrt í fólki sem segir: „Svona á þingið að starfa, ekki karp, ekki málþóf, sjónarmið koma fram og mál eru afgreidd.“ Ég held að þetta lofi góðu. Við höfum nýtt þing, þingmenn hafa aldrei verið yngri að meðaltali, reynslan lítil sem getur verið galli en líka kostur. Vonandi er þetta eitthvað sem við eigum eftir að sjá í framtíðinni en auðvitað þurfum við að einhenda okkur í það núna að skipa landinu ríkisstjórn,“ segir Guðni.

Nánar verður rætt við forsetann í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×