Formaður skipulagsnefndar Ólympíuleikanna í Tókýó árið 2020 hefur hótað íþróttamönnum í Japan með eftirtektarverðum hætti.
Formaðurinn, Yoshiro Mori, segir nefnilega að þeir sem syngi ekki þjóðsönginn almennilega eigi ekki skilið að fá að taka þátt á ÓL.
Þetta sagði Mori við 300 íþróttamenn sem eru á leið á leikana í Ríó. Íþróttamennirnir voru þá nýbúnir að syngja þjóðsönginn og Mori var allt annað en sáttur við sönginn.
„Er þið farið upp á verðlaunapallinn þá alls ekki muldra þjóðsönginn. Syngið sönginn almennilega. Þeir sem gera það ekki eiga ekki að koma til greina í Ólympíuliðið okkar,“ sagði Mori við íþróttafólkið.
Mori var forsætisráðherra Japan frá 2000 til 2001 og hefur orðspor á sér fyrir að vera frekar sérstakur. Hann hefur meðal annars sagt að enska sé tungumál óvinarins.
