Íslenski boltinn

Bjarni rekinn frá KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarni Guðjónsson skilur við KR í 9. sæti Pepsi-deildarinnar.
Bjarni Guðjónsson skilur við KR í 9. sæti Pepsi-deildarinnar. vísir/anton
Bjarni Guðjónsson hefur verið rekinn úr starfi sem þjálfari meistaraflokks karla hjá KR. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

KR-ingum hefur gengið illa það sem af er tímabili og aðeins náð í níu stig í fyrstu níu umferðunum í Pepsi-deildinni.

KR hefur tapað þremur leikjum í röð og er í 9. sæti Pepsi-deildarinnar, aðeins tveimur stigum frá fallsæti. Þá datt KR úr leik í Borgunarbikarnum eftir 1-2 tap fyrir 1. deildarliði Selfoss.

Guðmundur Benediktsson hættir einnig sem aðstoðarþjálfari KR en ekki kemur fram hver framtíð Arnars Gunnlaugssonar verður en hann var tekinn inn í þjálfarateymi KR fyrir skemmstu.

Bjarni stýrði KR síðast í 1-2 tapi fyrir ÍA, sínu uppeldisfélagi, á fimmtudaginn.

„Frá fyrsta degi mínum í starfi sem þjálfari KR hef ég lagt áherslu á að hagsmunir liðsins séu ætíð í forgangi. Eftir slæma byrjun á tímabilinu hef ég ásamt stjórn félagsins, komist að þeirri niðurstöðu að það sé hagsmunum liðsins nú fyrir bestu að ég láti af störfum,“ er haft eftir Bjarna á heimasíðu KR.

„Ég er þakklátur stjórn KR fyrir að hafa treyst mér fyrir þjálfun liðsins. Framtíð KR er björt og ég er sannfærður um að liðið muni komast aftur á toppinn, þar sem það á heima, áður en langt um líður.“

Bjarni tók við KR fyrir síðasta tímabil eftir að hafa stýrt Fram í eitt ár. KR endaði í 3. sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra og tapaði í bikarúrslitum fyrir Val.

KR vann aðeins 14 af 31 deildarleik undir stjórn Bjarna, gerði níu jafntefli og tapaði átta leikjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×