Íslenski boltinn

Ein af stofn­endunum leggur skóna á hilluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tinna Bjarkar Jónsdóttir hefur lengi verið í leiðtogahlutverki hjá Gróttuliðinu.
Tinna Bjarkar Jónsdóttir hefur lengi verið í leiðtogahlutverki hjá Gróttuliðinu. @grottaknattspyrna

Tinna Bjarkar Jónsdóttir hefur ákveðið að setja fótboltaskóna sína upp á hillu en hún hefur spilað alla tíð með uppeldisfélagi sínu Gróttu og á mikinn þátt í uppgangi kvennafótboltans á Seltjarnarnesinu.

Gróttukonur voru afar nálægt því að komast upp í Bestu deildina í sumar en urðu á endanum að sætta sig við sitja eftir í Lengjudeildinni á slakari markatölu. Fram fór upp í staðinn og spilar í Bestu deildinni næsta sumar.

Grótta spilar því áfram í B-deildinni en verður líka án reynsluboltans næsta sumar.

Tinna er leikjahæsta kona Gróttu frá upphafi en hún er 28 ára gömul. Á að baki 133 leiki fyrir Gróttu og hefur skorað í þeim 48 mörk.

Tinna hefur ekki aðeins lagt sitt á vogarskálarnar inn á vellinum því í kveðjufærslu á miðlum Gróttu kemur fram að hún var ein af stofnendum meistaraflokks kvenna sem settur var á stokk árið 2016.

Tinna var fyrirliði Gróttuliðsins á árunum 2021 til 2023.

„Tinna hefur verið lykilleikmaður hjá Gróttu allan sinn meistaraflokksferil en var í minna hlutverki í ár þar sem hún var að koma til baka eftir barneignir. Tinna er góður liðsfélagi og fyrirmynd yngri iðkenda í félaginu - hennar verður sárt saknað innan sem utan vallar en við óskum henni góðs gengis í þeim verkefnum sem taka við,“ segir í færslu á síðu Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×