Oklahoma City Thunder tekur á móti Golden State Warriors í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í nótt en staðan í einvíginu er 1-1 eftir að liðin skiptust á sigrum á heimavelli Golden State.
Russell Westbrook, Kevin Durant og meðreiðasveinar í Oklahoma komu nokkuð á óvart þegar þeir unnu fyrsta leik einvígisins í The Oracle þar sem Golden State hefur verið svo gott sem ósigrandi.
Golden State svaraði heldur betur fyrir tapið með 27 stiga sigri á miðvikudaginn þar sem leikmenn Oklahoma náðu sér aldrei á strik en Golden State ekki enn tapað tveimur leikjum í röð á þessu tímabili.
Þegar liðin mættust á heimavelli Oklahoma í Chesapeake Arena fyrr í vetur þurfti að framlengja og reyndust taugar meistaranna sterkari þar. Lauk leiknum með 121-118 sigri Golden State.
Oklahoma átti góðu gengi að fagna á heimavelli á vetur þar sem liðið vann 32 leiki af 41 en Golden State vann 34 af 41 útileikjum liðsins er liðið bætti met Chicago Bulls yfir flesta sigurleiki í deildarkeppninni.
Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 00:00.
