Innlent

Ríkisstjórnin hampaði góðverkum forveranna

Bjarki Ármannsson skrifar
Frétt sem birtist á vef forsætisráðuneytisins í dag byggði á tölum fyrir árið 2013.
Frétt sem birtist á vef forsætisráðuneytisins í dag byggði á tölum fyrir árið 2013. Vísir/Vilhelm
Frétt sem birtist á vef forsætisráðuneytisins í dag og hermdi að jöfnuður tekna væri meiri á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum byggði á röngum upplýsingum. Fréttin var sögð byggja á tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, fyrir árið 2014 en hið rétta er að tölurnar ná yfir árið 2013.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu er beðist velvirðingar á mistökunum. Á vef ráðuneytisins er búið að birta nýja frétt.

Upphaflega fréttin frá forsætisráðuneytinu rataði víða í fjölmiðla og vöktu margir stuðningsmenn stjórnarflokkanna athygli á henni. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gerði hana til að mynda að umtalsefni á Alþingi í dag. Þá deildi Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra meðal annarra fréttinni á Facebook-síðu sinni.

Ljóst er þó að tölur Eurostat mótast frekar af tíð síðustu ríkisstjórnar en þeirrar sem tók við eftir þingkosningarnar 2013. Athygli vekur að málið var til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í morgun undir liðnum „Meiri tekjujöfnuður á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum.“

Í frétt Eyjunnar um málið segir að tölur Eurostat byggi á Evrópsku lífskjararannsókninni og að þeir endurspegli tekjudreifingu ársins á undan hvert sinn. Upplýsingar um tekjudreifingu fyrir árið 2014 liggi ekki fyrir enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×