Innlent

Vilja setja tímabundið bann við bankasölu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp þar sem lagt er tímabundið bann á að fjármálaráðherra geti selt hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp þar sem lagt er tímabundið bann á að fjármálaráðherra geti selt hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Vísir/Kristinn
Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að sett verði á tímabundið bann við sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Verði frumvarpið að lögum öðlast þau gildi samstundis. Eiga þau að gilda til 1. nóvember á þessu ári.

Samkvæmt fjárlögum ársins hefur fjármálaráðherra heimild til þess að selja eignarhluti ríkisins í Arion banka, Íslandsbanka og það sem er umfram 70 prósent hlut ríkisins af heildarhlutafé í Landsbankanum. Vilja þingmenn Samfylkingarinnar að beðið sé með að selja hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum þangað til að ný ríkisstjórn hefur tekið við eftir boðaðar kosningar í haust.

Í greinargerð frumvarpsins segir að ríkja þurfi fullkomið traust til stjórnvalda hafi þau í hyggju að selja að hluta eða að öllu leyti eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Segir einnig að þar sem núverandi ríkisstjórn muni aðeins sitja nokkra mánuði til viðbótar sé ekki eðlilegt að fjármálaráðherra hafi þá heimild að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Verði frumvarpið að lögum taka þau gildi strax en falli niður þann 1. nóvember næstkomandi en þá gera má ráð fyrir að ný ríksstjórn verði tekin við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×