Kobe Bryant lék sinn síðasta leik í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þar sem fimm hundruð fjölmiðlamenn voru á staðnum og færri komust að en vildu. Það hefur verið mikið skrifað og fjallað um Kobe á síðustu dögum sem er ekkert skrítið enda goðsögn í lifanda lífi.
Flestir ef ekki næstum því allir blaðamenn hafa skrifað vel um Kobe Bryant og gert mikið úr hans afrekum inn á körfuboltavellinum. Þar er vissulega nóg að taka.
Kobe er einn besti leikmaður allra tíma, sá þriðji stigahæsti frá upphafi, sá eini til að spila tuttugu tímabil fyrir sama félag og þá er hann fimmfaldur NBA-meistari með Los Angeles Lakers.
Jack Tien-Dana, blaðamaður Rolling Stone, fór allt aðra leið en flestir aðrir blaðamann sem hafa verið að gera upp magnaðan feril Kobe á síðustu dögum.
Rolling Stone birti grein Jack Tien-Dana á sama degi og Kobe kvaddi NBA og þar er fyrirsögnin: Kobe Bryant: Goodbye to the NBA's All-Time Asshole.
Tien-Dana segist þarna vera að kveðja mesta fíflið í sögu NBA-deildarinnar og hann rökstyður mál sitt vel. Hann varar líka mikla aðdáendur Kobe Bryant við í upphafi greinarinnar að það sé kannski best fyrir þá að hætta að lesa.
Tien-Dana er þarna að skrifa að vara þá við sem sögðu upp vinnunni til að fylgja Kobe í síðustu leikjunum eða þá sem kaupa treyjurnar hans á 824 dollara eða yfir hundrað þúsund íslenskar krónur.
Jack Tien-Dana gerir þar mikið úr því hversu erfitt hefur verið að lifa með keppnismanninum Kobe Bryant í gegnum tíðina, bæði fyrir liðsfélaga, mótherja og greinilega fjölmiðlamenn líka.
Jack Tien-Dana segir að sem betur fer sé komið að síðasta leik Kobe svo að NBA-aðdáendur geti loksins farið að einbeita sér að einhverju betra og skemmtilegra. Það er hægt að lesa greinina hans hér.
Kobe Bryant átti reyndar lokaorðið því hann skoraði 60 stig í lokaleiknum sínum í nótt og varð elsti maðurinn í sögunni til að skora meira en 50 stig í leik.
