Innlent

Píratar ætla ekki að styðja við þinglega meðferð tillagna stjórnarskrárnefndar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Þingflokkurinn þarf að hittast og ræða málin en mér þykir líklega, miðað við hvað undan er gengið, að við munum ekki setja nafn okkar við þetta,“ segir þingmaður flokksins.
„Þingflokkurinn þarf að hittast og ræða málin en mér þykir líklega, miðað við hvað undan er gengið, að við munum ekki setja nafn okkar við þetta,“ segir þingmaður flokksins. Vísir/Valli
Píratar ætla ekki að styðja þinglega meðferð stjórnarskrártillagna stjórnarskrárnefndar. Þetta eru niðurstöður þriggja atkvæðagreiðslna í kosningakerfi Pírata þar sem fjallað var um málið. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að niðurstaðan hafi ekki verið afgerandi.

„Þetta var sett í dóm Pírata, sem hafa aðgengi að kosningakerfinu, og það hafa verið töluvert miklar umræður um þetta og við höfum verið með fullt af opnum fundum þar sem farið hefur verið ítarlega yfir hverja tillögu fyrir sig,“ segir hún um aðdragandann.  

„Niðurstaðan var ekki afgerandi með eða á móti, getum við sagt,“ segir hún „En þær voru allar felldar. Sú sem fékk minnstan stuðning til að halda áfram í þinglegt ferli var auðlindaákvæðistillagan.

En hvað gerist í framhaldinu? „Þingflokkurinn þarf að hittast og ræða málin en mér þykir líklegast, miðað við hvað undan er gengið, að við munum ekki setja nafn okkar við þetta,“ segir hún. 

Tillögurnar eru ekki komnar inn í þingið en reiknað er með að reynt verði að fá alla formenn flokkanna til að standa að málin. „Stjórnarskrárnefndin er með þetta hjá sér ennþá og það er ekki búið að útfæra það hvernig þetta verði lagt fram á þingi,“ segir hún.

„Mér finnst mjög ólíklegt að okkar formaður verði með í þessu,“ segir Birgitta.

Tillögurnar voru afgreiddar í þremur atkvæðagreiðslum hjá Pírötum en á bilinu 170-177 greiddu atkvæði. 56-60 prósenta meirihluti var fyrir því að Píratar myndu ekki styðja að drög að frumvarpi stjórnarskrárnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslur, fái þinglega meðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×