Skoðun

Spilavíti eru „víti til varnaðar“

Lilja Rafney Magnúsdóttir skrifar
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um að lögleiða spilavíti eða spilahallir, sem er fínna orð yfir sama hlut. Við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði höfum lagst alfarið gegn lögleiðingu spilavíta og teljum það auka þann gífurlega vanda sem spilafíkn er og vinna gegn lýðheilsusjónarmiðum. Flutningsmenn frumvarpsins eru þingmenn úr röðum Framsóknarflokks,Sjálfstæðisflokks og úr Bjartri framtíð.

Margar ástæður eru fyrir því að við Íslendingar eigum ekki  að bjóða upp á lögleg spilavíti. Við höfum komist ágætlega af án slíkrar starfsemi hingað til og ég tel að samfélagsleg og lýðheilsuleg rök séu sterk gegn því að við lögleiðum slíka starfsemi. Willum Þór Þórsson, flutningsmaður spilavítafrumvarpsins, segir að þau séu  góð viðbót við afþreyingu fyrir ferðamenn. Það skýtur skökku við þegar kannanir meðal ferðamanna sýna skýrt fram á að lang mestur hluti ferðamanna kemur fyrst og fremst til Íslands vegna náttúrunnar og vill njóta sérstakar náttúrufegurðar landsins. Mér finnst því engin ástæða til að við Íslendingar leggjum þá áherslu á  spilavíti til að trekkja að eða lokka hingað ferðamenn. Eða viljum við verða Las Vegas eða Mónakó norðursins ? Væri ekki nær að stjórnvöld komi loks fram með alvöru uppbyggingu, sýn og stefnu í ferðaþjónustu sem ferðaþjónustuaðilar og aðrir hagsmunaaðilar hafa beðið mikið eftir um allt land ? Gleymum því ekki að oftar en ekki þrífst ýmis konar vafasöm starfsemi í kringum spilavíti erlendis á borð við vændi, mansal og eiturlyfjasala og margháttuð  glæpastarfsemi virðist oftar en ekki verða eins konar hliðarbúgrein spilavíta, þótt auðvitað séu til undantekningar á því eins og öðru.

Þúsundir Íslendinga glíma við alvarlega spilafíkn

Spilafíkn er alvarlegt þjóðfélagsmein og ætla má að um 12 þúsund Íslendingar glími við einhvers konar sjúklega spilafíkn. Rannsóknir hafa sýnt fram á að í áhættuhópnum séu ungir karlmenn og til SÁÁ leita stöðugt fleiri sem glíma við alvarlega spilafíkn sem leitt hefur m.a.  til fíkniefnavanda og glæpastarfsemi. Í frumvarpinu er kveðið á um að 21 árs og eldri verði heimilaður aðgangur að spilavítum. Við þekkjum vandann sem spilafíklar glíma við og við verðum að horfa til hagsmuna fólks sem orðið hefur spilafíkninni að bráð og sorglegar afleiðingarnar fyrir  fjölskyldur þeirra sem í mörgum tilfellum hafa misst allar sínar eigur. Á undanförnum árum hafa fjárhættuspil á netinu á erlendum síðum aukist mikið og ólöglegir pókerklúbbar verið upprættir. Við höfum lögleitt starfsemi spilakassa, flokkahappdrætti, lottó og getraunir sem félagasamtök hafa notið hagnaðar af.  Mikilvægt er að endurskoða og styrkja lagaumhverfið um þá starfsemi í stað þess að auka við vandann með því að lögleiða spilavíti.

Á síðasta kjörtímabili lagði Ögmundur Jónasson  fram frumvarp  sem reisa átti skorður við spilastarfsemi í landinu og átti að takmarka aðgengi að netspilun á erlendum síðum. Frumvarpið náði ekki  afgreiðslu en ég tel þörf á sterkari lagaumgjörð um þessi málefni ásamt því að efla lögregluna í því að uppræta ólöglega spilastarfsemi. Einnig þarf að taka fastar á vanda spilafíkla og fjölga þarf meðferðarúrræðum.

Sérstaða Íslands eftirsóknarverð

Við Íslendingar erum oft feimin við að vera öðruvísi en aðrir. Vísað er til þess að spilavíti séu leyfð t.d. í Danmörku og Svíþjóð og að vítt og breitt um heiminn þyki þetta eðlilegur hlutur. En er ekki allt í lagi að við séum ekki nákvæmlega eins og allir aðrir ef við erum ekki sannfærð um  að þetta geri íslenskt mannlíf eftirsóknarverðara og betra, heldur auki frekar á vandann vegna spilafíknar?

Þeir sem tala fyrir lögleiðingu spilavíta telja að betra sé að fá starfsemina upp á yfirborðið, að frelsið eigi að vera að leiðarljósi og enda eigi forræðishyggju. En frelsi eins getur verið helsi annars og horfa verður til samfélagslegra, siðferðilegra og lýðheilsulegra sjónarmiða í þessu samhengi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar  er kveðið á um að vinna skuli að aukinni lýðheilsu í landinu. Ég get ekki séð að lögleiðing spilavíta sé skref í þá átt. Ég óttast nefnilega að sá hópur sem er veikastur fyrir eigi eftir að verða helstu viðskiptavinir spilavítanna. Willum Þór hefur sagt að stuðla eigi að ábyrgri spilamennsku og að einstaklingar gætu óskað eftir því við spilavítið að þeir geti setti sig á bannlista. Mundi virka fyrir alkóhólista að óska eftir því við starfsmenn vínbúðanna eða kráaað vera settur á bannlista? Ég held að það sé mikil draumsýn að halda að slíkt virki .  

Í frumvarpinu er talað um að koma eigi fram með ýmis úrræði fyrir spilafíkla og vinna að forvörnum. Til hvers að lögleiða spilavíti sem auka vandann og leggja síðan til að auka fjármuni til þess að koma í veg fyrir vanda sem skapast ef hægt er að sleppa við vandamálið með því að lögleiða ekki slíka starfsemi?  Ég vona að þær skynsemisraddir heyrist, bæði á Alþingi og úti í þjóðfélaginu, að þetta sé ekki sú viðbót við íslenskt  samfélag sem við þurfum á að halda. Ef það er forsjárhyggja að leggjast gegn lögleiðingu spilavíta þá er það góð forsjárhyggja að mínu mati.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×