Innlent

Segir Ásmund hafa skipað sér í flokk með popúlistum og Donald Trump

Bjarki Ármannsson skrifar
Oddný G. Harðardóttir gagnrýnir ummæli þingmanns Sjálfstæðisflokksins um flóttamenn.
Oddný G. Harðardóttir gagnrýnir ummæli þingmanns Sjálfstæðisflokksins um flóttamenn. Vísir/Stefán
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag ummæli sem Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lét falla um flóttafólk í gær og hafa vakið talsverða athygli. Sagði Oddný Ásmund ala á ótta og hoppa á vagn popúlista.

Ásmundur, sem áður hefur vakið athygli fyrir umdeild ummæli um innflytjendur, sagði þá að skoða þyrfti af fullri alvöru hvort rétt sé að snúa hælisleitendum til síns heima strax við komu þeirra til landsins. Ræða þyrfti mögulegar breytingar á opnum landamærum landsins.

„Í vanda sem glímt er við, elur háttvirtur þingmaður á ótta fólks við innflytjendur og hoppar á vagn sem bæði popúlistar í Evrópu og forsetaframbjóðandinn Donald Trump í Bandaríkjunum keyra,“ segir Oddný.

Oddný spurði jafnframt Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra hvað henni þætti um ummæli Ásmundar og hvort hún vildi að Ísland lokaði landamærum sínum og gengi úr Schengen-sambandinu.

„Ég er mikill stuðningsmaður EES-samningsins, ég tel að Schengen hafi nýst okkur mjög vel og er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að ganga úr, eða skoða að ganga úr, Schengen,“ segir Eygló. „Ég tel að við eigum að axla okkar ábyrgð sem fullvalda þjóð og taka á móti flóttamönnum, í samræmi við okkar skyldur, og gera það eins vel og við getum.“

Eygló sagðist jafnframt þeirrar skoðunar að ekki þyrfti að taka upp sérstakt vegabréfaeftirlit, líkt og gert hefur verið í Danmörku og Svíþjóð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×