Stephen Curry og Klay Thompson skoruðu samtals 75 stig fyrir Golden State Warriors sem vann sex stiga sigur, 112-118, á Miami Heat á útivelli. Golden State hefur unnið 51 af 56 leikjum sínum á tímabilinu.
Curry skoraði 42 stig í nótt en þetta er í níunda sinn á tímabilinu sem hann gerir meira en 40 stig í leik. Thompson kom næstur með 33 stig en hann gerði m.a. 15 stig í röð í 4. leikhluta.
Dwayne Wade var stigahæstur í liði Miami með 32 stig og þá var Hassan Whiteside með 21 stig og 13 fráköst af bekknum.
Oklahoma City Thunder lagði Dallas Mavericks að velli, 103-116.
Russell Westbrook og Kevin Durant skoruðu báðir 24 stig fyrir Oklahoma en sá fyrrnefndi gaf einnig 13 stoðsendingar. Dirk Nowitzki var stigahæstur í liði Dallas með 33 stig.
LeBron James og Kyrie Irving skoruðu 23 stig hvor fyrir Cleveland Cavaliers sem komst aftur á sigurbraut með 114-103 sigri á Charlotte Hornets á heimavelli.
Cleveland er í efsta sæti Austurdeildarinnar en liðið hefur unnið 41 af 56 leikjum sínum í vetur.
Úrslitin í nótt:
Miami 112-118 Golden State
Dallas 103-116 Oklahoma
Cleveland 114-103 Charlotte
Indiana 108-105 New York
Detroit 111-91 Philadelphia
Toronto 114-105 Minnesota
Chicago 109-104 Washington
Memphis 128-119 LA Lakers
LA Clippers 81-87 Denver
Sacramento 92-108 San Antonio