Marc Gasol, miðherji Memphis Grizzlies í NBA-deildinni, er fótbrotinn og verður frá keppni í lengri tíma.
Gasol hefur spilað meiddur í nokkurn tíma og fór af velli í 1. leikhluta þegar Memphis tapaði fyrir Portland Trail Blazers á mánudagskvöldið. Eftir að hafa farið í myndatöku kom brot í hægri fæti í ljós.
Þetta er mikið áfall fyrir Memphis en Spánverjinn er í hópi bestu miðherja NBA-deildarinnar.
Gasol er með 16,6 stig, 7,0 fráköst og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur fyrir lið Memphis sem er í 5. sæti Vesturdeildarinnar.
Gasol, sem hefur verið í herbúðum Memphis frá árinu 2008, var valinn í fyrsta úrvalslið NBA-deildarinnar í fyrra.
Einn besti miðherjinn í NBA fótbrotinn
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
