Skoðun

Á reiki um RÚV

Páll Magnússon skrifar
Það var nokkuð kyndugt fyrir kunnugan að fylgjast með þeim umræðum sem spunnust um Ríkisútvarpið við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir 2015 núna fyrir áramótin. Til að skilja skringilegheitin þarf þó að líta eitt ár aftur í tímann – til afgreiðslu fjárlaga fyrir 2014, en fyrstu drög að þeim voru kynnt í október 2013. Þá var nýlokið rekstrarári RÚV 2012/13 sem skilaði hagnaði, líkt og þrjú af fjórum rekstrarárum frá hruni höfðu gert. Samanlagt höfðu þessi fjögur heilu rekstrarár skilað hagnaði og rekstur RÚV verið í ágætu jafnvægi, þrátt fyrir stöðugan niðurskurð á þjónustutekjum frá 2008. Þeim ítrekaða niðurskurði var einfaldlega mætt með hagræðingu og annarri aðlögun í rekstri.

Við lokaafgreiðslu fyrrgreindra fjárlaga fyrir 2014 lá fyrir sú ákvörðun eiganda Ríkisútvarpsins, Alþingis fyrir hönd þjóðarinnar, að umfang RÚV ætti að minnka um sem svaraði 500 milljónum króna. Þetta var stefnumarkandi ákvörðun, væntanlega að tilhlutan menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, til þriggja ára – 2014, 2015 og 2016. Menn þurftu sem sagt ekki að fara í neinar grafgötur um það lengur hverjar væru tekjuforsendur fyrir rekstri RÚV næstu þrjú árin og óhjákvæmileg afleiðing þessa væri m.a. að ársstörfum hjá RÚV þyrfti að fækka um 60. Forystumenn RÚV börðust gegn þessari ákvörðun af fremsta megni en þetta varð niðurstaða Alþingis og þar með lög í landinu.

Stjórn RÚV samþykkti í nóvember 2013 með sjö atkvæðum gegn tveimur, eftir ítarlega umfjöllun, að ráðast í nákvæmlega útfærða hagræðingu sem myndi skila ofangreindri niðurstöðu – 500 milljóna króna sparnaði. Óhjákvæmilega yrði þrátt fyrir það tap á rekstrarárinu 2013/14, enda talsvert liðið á árið þegar ákvörðun Alþingis lá fyrir, en reksturinn yrði aftur kominn í jafnvægi strax árið eftir. Öllum var ljóst að þetta yrðu harkalegar og erfiðar aðgerðir sem myndu framkalla mótmæli bæði þeirra sem áttu hagsmuna að gæta og ekki síður þeirra sem báru hag og hlutverk Ríkisútvarpsins í samfélaginu einlæglega fyrir brjósti. Ákvörðun Alþingis lá hins vegar fyrir og við henni varð að bregðast.

Heyktust á eigin ákvörðun

Það er skemmst frá því að segja að stjórn RÚV heyktist á eigin ákvörðun strax við fyrstu mótbáru. Allrafyrst sá þó undir iljarnar á menntamálaráðherranum sem hljóp svo hratt frá sjálfum sér að svo virtist sem fjórir fætur væru á lofti í senn. Stjórnarmennirnir flestir fylgdu svo ráðherranum fast eftir á flóttanum. Þessari atburðarás lauk síðan með því að stjórnin valdi einn úr sínum hópi sem útvarpsstjóra – og sameiginlega lét hann og stjórnin stóran hluta af fyrrgreindri hagræðingu ganga til baka. Þetta þótti ýmsum fallega gert og mildilega. Þegar upp var staðið reyndist þetta hins vegar hinn mesti hermdargreiði við Ríkisútvarpið og ekki síður starfsmenn þess. Ef þessar aðgerðir hefðu gengið eftir væri núna komið jafnvægi á rekstur RÚV og rauntekjuaukningin á árinu 2015 hefði öll getað farið í aukna dagskrárgerð.

Fyrsta rauntekjuaukning í sex ár

Og þá er komið að kyndugheitunum sem nefnd voru í byrjun greinar. Rauntekjur RÚV frá ríkissjóði aukast nefnilega um meira en 200 milljónir króna milli áranna 2014 og 2015 og er það í fyrsta skipti í sex ár sem það gerist. Nú hefði mátt ætla að forystumenn RÚV hefðu unað nokkuð bærilega við svo búið – 200 milljónir til viðbótar við það sem ákveðið var fyrir ári og þeir gátu reiknað með. Nei, frá stjórn RÚV kom ályktun sem sagði m.a. að þetta myndi „…leiða til stórfelldra breytinga á hlutverki, þjónustu og starfsemi Ríkisútvarpsins með stórtækari niðurskurðaraðgerðum en áður hafa sést hjá félaginu“. Ha? Það var verið að auka framlag ríkisins til félagsins um meira en 200 milljónir króna að raungildi! Og frá „vinum“ RÚV komu greinar með fyrirsögnum á borð við „Leiftursókn öfgafólksins gegn RÚV“, „Herförin gegn RÚV“ og „Hamslaust niðurrif“. Og einn „vinurinn“ sagði í grein:

„Ríkisútvarpið sætir grimmilegri og grímulausri pólitískri aðför um þessar mundir, líklega þeirri alvarlegustu sem dæmi eru um í langri sögu útvarps í almannaþágu á Íslandi. Aðförin miðar beinlínis að því að veikja fjárhagslega og menningarlega stöðu RÚV til frambúðar. Nú skal látið sverfa til stáls.“

Sjaldan hafa stærri orð fallið af minna tilefni um málefni RÚV. Með leyfi að spyrja: Hvað hefðu stjórn RÚV og „vinirnir“ sagt ef framlögin hefðu verið skorin niður fyrst hægt var að segja þetta þegar þau voru aukin um meira en 200 milljónir að raungildi? Halda menn að svona þvættingur um stöðu mála gagnist RÚV? Almenningur virtist allavega ekki láta blekkjast. Aðeins um 300 manns mættu á einhvern best auglýsta mótmælafund ársins þar sem poppstjörnur og fleiri listamenn tróðu þó upp. Vígreifur bæjarstjóri okkar Eyjamanna benti á að þetta hefði verið innan við helmingur þess fjölda sem mætti á handboltaleik hjá B-liði ÍBV í sömu viku.

Skrýtin yfirlýsing

Það var svo til að kóróna kyndugheitin þegar Fréttablaðið hafði þetta eftir útvarpsstjóranum: „Það er ekki búið að teikna upp nein niðurskurðaráform og er ekki í undirbúningi.“ Þetta getur aðeins þýtt annað af tvennu: a) Harmkvælin sem rakin voru hér að framan, og þegar stjórn RÚV hótaði „…stórtækari niðurskurðaraðgerðum en áður hafa sést…“, voru ósönn og innihaldslaus og engin þörf á niðurskurði; b) Yfirstjórn RÚV ætlar sér ekki að stilla útgjöldum til jafns við tekjurnar skv. fjárlögum, heldur halda áfram þeim bullandi taprekstri sem var á nýloknu rekstrarári – og láta skeika að sköpuðu.

Í stað þess að sigla nú lygnan sjó með reksturinn í jafnvægi, eins og væri ef aðgerðirnar í árslok 2013 hefðu verið látnar ná fram að ganga, er reksturinn nú í uppnámi með endurtekinni óvissu fyrir starfsmenn. Og ekki nóg með það: flestir þeir sem mesta reynslu og þekkingu höfðu á rekstri RÚV voru reknir, nokkrir til viðbótar hættu af sjálfsdáðum þegar þeir sáu hvað verða vildi, og það góða fólk sem kom í staðinn á flest það sameiginlegt að hafa enga reynslu né þekkingu á rekstri fjölmiðla yfir höfuð. Árangurinn er m.a. sá, þrátt fyrir afburða starfsfólk, að nær allar kennitölur sem notaðar eru sem mælikvarði á frammistöðu RÚV lækkuðu á síðasta ári: Hlutur RÚV í sjónvarpsáhorfi landsmanna minnkaði; hlutur Rásar 2 í útvarpshlustun landsmanna minnkaði (Rás 1 jók hlut sinn lítillega); áhorf á fréttir RÚV minnkaði; traustið á RÚV sem stofnun minnkaði og traustið á fréttastofu RÚV minnkaði. Og reksturinn sjálfur breyttist úr hagnaði í tap sem ekki sér fyrir endann á, þrátt fyrir rauntekjuaukningu á fjárlögum.




Skoðun

Sjá meira


×