Hugi Ólafsson, formaður íslensku samninganefndarinnar, segir það alltaf hafa legið fyrir að vikurnar tvær myndu ekki duga til – margt hefur þó áunnist þegar og nýju uppkasti að samningi var dreift á milli samningamanna þjóðanna í gærkvöldi.
Stærstu álitamálin eru þó eftir, sem skýrir tafirnar. Þrennt kemur þar aðallega til, og þau skarast í samningstextanum.
Fyrst er að telja mismunandi ábyrgð ríkja og ríkjahópa á losun – ekki síst sögulega. Hvaða ábyrgð þróunarríki og þróuð ríki bera, og hvernig á að skilgreina hvaða ríki tilheyra hvorum hópi. Það kemur til af stórstígum breytingum á ríkjum sem flokkuð voru upphaflega til þróunarríkja en þurfa nú að taka meiri ábyrgð; Kína og Indland sem vaxandi efnahagsveldi en einnig Suður-Kórea, Singapúr, Síle og Mexíkó. Barist er um að þessi ríki, og fleiri, taki á sig aukna ábyrgð með tímanum.
Þá er tekist á um peninga. „Það sem miðað hefur verið við eru 100 milljarðar Bandaríkjadala á ári, árið 2020. Það sem er deilt um er hvort eigi að setja inn í fjármögnunina upphæðir fram til þess tíma; hvort eigi að auka við þessa upphæð eftir 2020 og hvort þetta eigi að renna til þróunaraðstoðar og hvort einkageirinn skuli hafa hlutverk. Mörg atriði eru þarna undir í raun og veru,“ segir Hugi.

Lengi hefur tveggja gráðu markið verið viðmiðið – að halda hlýnun jarðar undir tveimur gráðum miðað við árin fyrir iðnbyltingu. Svo er ekki lengur. „Þrír kostir voru í drögunum frá því í gær [miðvikudag]. Það er þetta gamla orðalag um tvær; að það sé bara ein og hálf en svo líka millileið. Það er ríkur vilji, og líka hjá okkur, að koma til móts við sjónarmið þeirra sem eiga mest undir þessu,“ segir Hugi.