Innlent

Ekki unnið eftir tímasettri áætlun um afnám verðtryggingar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fjármálaráðherra segir að unnið sé með málið í ráðuneytinu á grundvelli þess að það varði heildarsýn á framtíðarskipan húsnæðismála.
Fjármálaráðherra segir að unnið sé með málið í ráðuneytinu á grundvelli þess að það varði heildarsýn á framtíðarskipan húsnæðismála. Vísir/Stefán

Ekki er til nein tímasett áætlun um afnám verðtryggingar. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar, varaþingmanns Samfylkingar, um hvenær verðtryggingin verður afnumin.

Björgvin G. vildi svör um áætlun stjórnvalda.Vísir/Vilhelm

Varðar heildarsýn á húsnæðismálin

Í svarinu kemur fram
að unnið sé eftir tillögum starfshóps á vegum stjórnvalda sem skilaði skýrslu með tillögum um breytingu á lögum um verðtryggingu árið 2014. Þar er ekki lagt til afnám verðtryggingar, eða bann við henni, heldur bann við ákveðnum tegundum verðtryggðra lána.

Bjarni segir í svarinu að breytingarnar sem lagðar eru til í skýrslunni varði heildarsýn á framtíðarskipan húsnæðismála og því séu þær skoðaðar á þeim grundvelli í ráðuneytinu, en ekki eftir tímasettri áætlun. Skrefin sem nefndin lagði til að verði tekin í átt að fullu afnámi verðtryggingar voru:

  • óheimilt yrði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, 
  • lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána yrði lengdur í allt að 10 ár, 
  • takmarkanir yrðu gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána, og 
  • hvati yrði aukinn til töku og veitingar óverðtryggðra lána. 
Elsa Lára fékk svar við sinni fyrirspurn í gærkvöldi.Vísir/Pjetur

Verðtryggðar eignir eru lán heimilanna

„Unnið er að áhrifamati tillagnanna og hefur í því skyni verið óskað eftir greiningum og álitum frá eftirlitsstofnunum. Þá hefur ráðuneytið lagt áherslu á að meta þær aðgerðir sem mögulegar eru til að koma til móts við tekjulægri einstaklinga og fyrstu kaupendur fasteigna,“ segir Bjarni í svarinu.

Þetta er annað svarið sem Bjarni leggur fram á þingi á tveimur dögum sem snúa að verðtryggingu. Í gærkvöldi svaraði hann fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, um hlutfall verðtryggðra lána til heimila af öllum verðtryggðum eignum stóru viðskiptabankanna þriggja.

Elsa Lára sagði í samtali við fréttastofu um þetta í morgun að það hefði komið henni á óvart að yfir 60 prósent verðtryggðra eigna bankanna væru lán til heimilanna. Þar af voru 57 prósent lán með veði í fasteignum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×