Körfubolti

Allir þjálfararnir í NBA munu bera Flip-nælu í allan vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Flip Saunders.
Flip Saunders. Vísir/Getty
Flip Saunders, forseti og þjálfari NBA körfuboltaliðsins Minnesota Timberwolves, lést um helgina og mjög margir innan NBA-deildarinnar hafa minnst þessa merka manns.

Flip Saunders var aðeins sextugur en hann var í fullu starfi sem bæði forseti og þjálfari Minnesota Timberwolves þegar hann veiktist af krabbameini.

Flip Saunders var mjög vinsæll og virtur meðal NBA-fjölskyldunnar og gott dæmi um það er ákvörðun þjálfarasamtaka deildarinnar.  Hann var virkur meðlimur í þjálfarasamtökum deildarinnar í tuttugu ár og átti marga vini meðal leikmanna og þjálfara deildarinnar.

Rick Carlisle, forseti þjálfarasamtaka NBA-deildarinnar, sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem kom fram að allir þjálfarar deildarinnar munu minnast þjálfarans með sérstökum hætti.

Allt tímabilið munu þjálfararnir bera sérstaka nælu til minningar um Flip Saunders, svokallaða Flip-nælu. Hvert lið mun spila 82 leiki á tímabilinu og svo tekur við tveggja mánaða úrslitakeppni. Minningu Flip Saunders verður því haldið á lofti á mörgum stöðum í allan vetur.

Flip Saunders þjálfaði lið Minnesota Timberwolves, Detroit Pistons, og Washington Wizards frá 1995 til 2015. Hann var fyrst í tíu ár hjá Minnesota Timberwolves og tók síðan aftur við liðinu 2014.

Sam Mitchell var aðstoðarmaður Flip Saunders hjá Minnesota Timberwolves og þjálfaði liðið þann tíma sem Saunders var frá vegna veikindanna. Mitchell verður nú aðalþjálfari liðsins.

Minnesota Timberwolves spilar inn fyrsta leik á tímabilinu á móti Los Angeles Lakers í Staples Center í Los Angeles annað kvöld en fyrsti heimaleikur liðsins verður á móti Denver Nuggets á föstudagskvöldið. Þar munu forráðamenn Minnesota Timberwolves örugglega minnast Flip Saunders með táknrænum hætti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×